19.9.05

Friedrich

Það má segja að maður hafi verið að synda um í reynslusjó vesturports undanfarnar vikur. Mikið sem maður hefur grætt á og lært af þessu fólki. Sýndum Woyzeck í fyrsta skipti fyrir áhorfendur í gærkvöldi og gekk sýningin bara ágætlega. Þetta er samt ekki alveg tilbúið, ýmislegt á líklega eftir að breytast. En yfir höfuð er sýningin orðin þétt og góð. Áhorfendur virtust allavega vera að fíla þetta og voru almennt vel með á nótunum.
Woyzek finnst mér vera afar falleg sýning, með viðbjóðslegum undirtóni, ef ég ætti að reyna að lýsa henni sjálfur. Tónlistin eftir Nick Cave er ótrúlega mögnuð. Það er þess virði að sjá sýninguna bara út á tónlistina.
Mann er óneitanlega farið að hlakka heilmikið til að fara til London og sýna þetta þar. Það verður án efa mikið ævintýri.

Mikið er samt fúllt að missa af Iceland Airwaves. Nú fyrir skemmstu voru að bætast í hóp erlendra listamanna á hátíðinni hljómsveitin Ratatat. Þeir gáfu út plötu í fyrra samnefndri sveitinni og sú plata er bara sumarið 2004 fyrir mér.
Dagskráin lítur líka bara mjög vel út. Fullt af góðum böndum. Bömmer.

En hei, ég er að fara frítt út til London, og ég fæ að hitta Nick Cave. Sweet.

Lagið:
The Arcade Fire - In the backseat
Það er satt sem fólk segir. Platan Funeral með The Arcade Fire er ofboðslega góð plata. Síðasta lagið á plötunni er stórkostlegt. Mögnuð uppbygging og söngurinn ótrúlega fagur. Mig langar til að borða gæsahúðina mína þegar ég hlusta á In the backseat. Svo djúsí verður hún.