14.7.05

Lambrófa

Má til með að mæla með nýju, stórskemmtilegu veftímariti, dindill.com. Þessir kókhressu strákar eru að gera góða hluti með þessum vef. Skrifa virkilega góðar greinar sem eru ýmist fræðandi, fyndnar eða vita gagnslausar. Eða allt í senn. Svo eru ýmsir fastir liðir sem eru óborganlegir. Mínir uppáhalds eru Nauðsynlegir hlutir og vínsmökkun. Hló svo mikið yfir Bazookunni... að ég dó. Ógeðslega fyndið. Myndasögurnar eru líka góðar, það litla sem komið er. Þetta er nú bara nýkomið af stað hjá þeim en byrjunin lofar afskaplega góðu. Haldið áfram þessum tíðu uppfærslum dindilsmenn og gangi ykkur vel.
Hér er slóðin, ef þið sjáið hana: dindill.com

Lagið:
The Postal Service - Natural Anthem
Síðasta lagið og glæsilegur endir á plötunni Give Up. Platan er góð, verður betri við hverja hlustun. Það er einhver sumarleg áfergja falin í þessu lagi, æsingur. Svona mildur æsingur.
Veit ekkert hvað ég er að segja.

13.7.05

Hégómi

Jæja, fann út hvernig á að þurrka þessa hornklofa út. En nú er spurningin hvort ég eigi yfir höfuð að láta þá fara. Því allavega ein manneskja hefur lýst því yfir að henni fyndist þeir ættu að vera á sýnum stað. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þeir svolítið skemmtilegir þarna, svona gjörsamlega út úr kú við allt annað. Eins og ég segi, stupid fresh. En þeir skera sig kannski full mikið úr? Verst að geta ekki náð græna bakgrunnslitnum burt undan hornklofunum. Æj, hvað á maður að gera. Þett' er svo erfitt líf.

En meira um tónlist. Er í hálfgerðum vandræðum með alla þessa tónlist, eða öllu heldur allar þessar fjörutíu plötur sem ég keypti í Uu Ess Ainu. Einu græjurnar inni í herberginu mínu er tölvan mín og mér finnst hálf púkó að hlusta á plöturnar í fyrsta skipti í tölvunni. Auk þess fékk ég mér iPod líka (já, geisladiskapúkinn sjálfur) og margt af því efni sem ég keypti átti ég fyrir inni á tölvunni sem nú er líka komið inná iPodinn. Ég tek diskana jafnvel aldrei úr hulstrinu. Finnst það bara e-ð svo lummó.

Hégómi? Ég ákvað að ræða aðeins við sjálfan mig...

Ég: „Ertu að væla út af þessu Haraldur?"
Ég: „Emm, sýnist það já."

Lagið:
Of Montreal - Forecast Fascist Future; Uppáhaldslagið mitt þessa daganna. Bara mest grípandi viðlag sem ég hef heyrt lengi og virkilega skemmtilega kaflaskipt lag. Plata þeirra The Sunlandic Twins sem kom út í ár er öll í þessum dúr. Hress og skemmtileg og oggupínu sýru- og tilraunakennd líka. Sem er alltaf svo gott. Góð hljómsveit, Of Montreal.

12.7.05

Mín eigin Hróarskelda

Þó svo maður hafi ekki haft sig út til Danaveldis til að hlíða á skemmtilega lifandi tónlist, þá er ekkert sem aftrar manni frá því að geta séð og heyrt í skemmtilegum hljómsveitum hér heima. Ég held bara mína eigin tónlistarhátið.

Queens of the Stone Age og Foo Fighters spiluðu í Egilshöllinni 5. júní síðastliðinn. Það var geðveikt. Sérstaklega að sjá QOTSA. Joshua Homme var náttúrulega mjög svalur, einhver hafði það á orði að hann hlyti bara að vera laungetinn sonur Presley, slík var sviðsframkoman, öruggur og töff. Hljómborðsgellan var að gera góða hluti, mjaðmahreyfingar í hávegum hafðar og kynþokkinn bara almennt mjög mikill. Trommarinn var mjög harður og þéttur, bassaleikarinn var...bara fínn, og hinn gítarleikarinn var mjög Interpol-eskt svalur. (Vá Haraldur, rosalega var þetta töff og indílegt orðaval hjá þér) Tónlistin var rosalega þétt og flottir spunarnir inn á milli í sumum laganna, sérstaklega í No One Knows.
Dave Grohl var mjög hress sem og fleiri meðlimir Foo Fighters.
Stemningin var bara mjög góð og ég fór sáttur og sveittur heim.

Í gærkvöldi fór ég á tónleika með hinum kyngimagnaða Antony ásamt hljómsveitinni, The Johnsons. Þeir voru vægast sagt frábærir.
Hudson Wayne hittuðu upp með þægilegri músík, músík sem er lík mörgu öðru sem gert hefur verið áður, en góð engu að síður.
Síðan tók við smá bið, en loksins stigu The Johnsons á svið við mikinn fögnuð viðstaddra. Nasa var troðfullur af allskonar fólki. Það var hægt að sjá alla flóruna, unga sem aldna, ríkisplebba, 101 rottur, fertugar húsmæður og svo við hin; venjulega fólkið. Einmitt. Jú svo var þarna náttúrulega mökkmikið af samkynhneigðu fólki. Antony kallinn er víst eitthvað á milli þess að vera hann eða hún. Skilur samkynhneigt fólk hann betur en við hin? Ég veit það ekki. Hitt veit ég að hann syngur afskaplega fallega, er með magnaða rödd.
Já, The Johnsons stigu á svið, komu sér fyrir og gítarleikarinn byrjar að spila. Öruggur og góður. Svo allt í einu, birtist einhver vera aftarlega á sviðinu. Hellisbúi? Lítur svolítið þannig út. Dökk yfirlitum, með svart ritjulegt mikið hár, stór og í dökkri dragt. Enginn áttar sig almennilega fyrr en veran er langleiðina búin að bograst að flyglinum og loksins taka fagnaðarlætin við. Antony and The Johnsons byrja að spila My Lady Story, og maður veit að maður er á staðnum. Hljómsveitin spilar síðan ýmist gamalt efni, tökulög eða lög af nýju plötunni, I Am a Bird Now (það eina sem ég, og líklega fleiri, hef heyrt með Antony). Þau tóku t.d. efni eftir Leonard Cohen, Lou Reed o.fl. Maður skammaðist sín pínu fyrir að þekkja ekki þessi góðu lög eftir þessa merku tónlistarmenn.
Antony söng alveg eins og hann hljómar á plötunni (I Am a Bird Now). Stórkostlegt alveg. Lögin voru flutt á nokkurn annan hátt heldur en á plötunni. T.d. var enginn trommuleikur, en hann skipar frekar stóran sess á plötunni. Auk þess er platan heilmikið pródúseruð og hljóðblönduð. Það kom þó ekki að sök, bassaleikarinn var mjög þéttur og allur hljóðfæraleikur nær óaðfinnanlegur, hvort sem spilað var á píanó, bassa, gítar, fiðlur, selló eða harmonikku.
Lögin hans Antonys eru svo ótrúlega falleg, get eiginlega ekki lýst þeim öðruvísi. Textarnir svo angurværir. Þarna stóð maður og hlustaði í mjög góðum félagsskap, og þó svo maður sá ekkert í andlitið á Antony fyrir flyglinum gerði það bara ekkert til, þarna var það tónlistin sem skipti máli. Einhverjir höfðu það líka á orði að andlit hans hafi ekki verið neitt sérstaklega fögur sjón þegar hann var að syngja, ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Maður sá svolítið í manninn, hvernig hann lifði sig inn í þetta með sínum sérstöku handahreyfingum og svoleiðis. Húmorinn var líka í lagi og hann kunni að koma fram, enda líklega búinn að koma fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Að tónleikunum loknum leið manni einfaldlega vel.

Svo eru það bara Sonic Youth og Franz seinna í sumar.

Bæjó

Haraldur, geðveikt fresh og indí áðí!

Viðauki: Er að prófa mig áfram með nýtt útlit þessa vefritsræfils. Kann bara ekki að ná þessum bölvuðu grænu hornklofum í burtu, þeir eru hluti af upprunalega templeitinu sem útlit síðunnar er byggt á. Ef einhver kann, má hann/hún hjálpa mér með það. Get borgað með...tjah...bara kemur í ljós.