11.10.04

Ráðning í starf Hæstaréttardómara

Í lífsleiknitíma í dag fórum við niður í alþingishús að fylgjast með störfum alþingis. Þar hálfsofnaði ég.

10.10.04

Óvirðing

Viðburðarríkt síðasta kvöld. Ég vann rassinn minn út like I don´t know what. Líkamsæfingar voru mikið iðkaðar, bæði hvað varðar þol vöðva og þol annarra líffæra við áfengisdrykkju. Þol vöðvanna, öfugt við það sem margir myndu halda, varð samt sem áður að lúta í lægra haldi vegna þess að keyrslan var þvílík og ég er allur lemstraður í dag og bara eiginlega alveg ónýtur. Svo var drykkjan heldur ekkert svo mikil.
Ég tók semsagt þátt á fótboltamóti MH með liðinu Tha Rockaz (hvernig sem það á að vera skrifað, að mínu mati líka svolítið tæpt nafn á liði). Fóboltamótið var ekki eini vettvangur íþróttaiðkunar þennan daginn. Ég fór nefnilega líka í kórbasket um daginn og þar er alltaf mikið tekið á. Þannig að maður átti víst að vera frekar heitur fyrir átök fótboltans. Það er nú víst samt málið með þennan tiltekna fótbolta fótboltamótanna í MH, að hann er tekinn misalvarlega af þáttakendum, og líklega taka áhorfendur hann minnst alvarlega.

Kvöldið hófst allavega á því að áðurnefnt lið mitt hittist í heimahúsi eins liðsmanna. Þar hófst *hóst*hófleg*hóst* drykkja liðsmanna, svona til að hóa hópinn saman, hóta nokkrum hó´s, berjá Hófí og, eins og orðatiltækið segir, peppa hópinn saman upp á hólinn.

Þegar við vorum orðnir nokkuð sprækir voru leigubílar teknir upp í Egilshöll. Þar hófst mótið og komumst við, okkur flestum að óvörum miðað við ástand flestra liðsmanna, upp í átta liða úrslit en töpuðum þá 0-1. Við vorum bara almennt séð nokkuð ánægðir með árangurinn. Ég lék í fremstu víglínu og skoraði þrjú mörk. Jeij. Svo var ég líka búinn að snyrta og betrumbæta yfirvaraskeggið mitt og þarna þar sem ég klæddist Bayern Munchen treyjunni minni leit ég út eins og hinn gleymdi þýski framherji/klámmyndaleikari frá 7. áratugnum. Fleira markvert gerðist svosem ekki á mótinu en þó gerði ég eitt sem ég er ekki alltof stoltur af.

Ég ætlaði niður í búningsklefa að fá mér vatn eða e-ð álíka. Þá kom ég að læstum dyrum. Ég hugsa með mér hvurslags háttalag þetta sé á strákunum, að læsa að sér. Ég prófa þá hinar dyrnar sem ég vissi að gengu að sama klefa og viti menn, þær eru ólæstar. Þar arka ég inn og á móti mér tekur fullt af kvennfólki sem voru að klára að klæða sig. Einhverrahluta vegna finnst mér þetta ekkert skrítið og held bara áfram inn klefann en mér heyrist samt sem einhver segi við mig: „Heyrðu vinur, hvað þykist þú vera að gera?"
„Þær hljóta bara að vera í þessum helmingi klefans" hugsa ég með mér og fer yfir í hinn hluta klefans. Þar eru aðrar þrjár dömur að klára að klæða sig. „Halli, hvað ertu að gera??" Er þá sagt við mig og um leið hugsa ég nákvæmlega það sama, hvað í andskotanum var ég eiginlega að gera?? Ég var þarna náttúrulega kominn inn í kvennaklefann, perranum mér sjálfkvæmt og hafði einfaldlega ruglast á klefum.
Ég skaust að sjálfsögðu stystu leið út og vil ég hér með biðjast afsökunar á þessari óvirðingu minni í garð þeirra kvenna sem hér áttu hlutdeild að. Það má þó fylgja sögunni að á þessum fögru kvenmannslíkömum voru föt búin að hylja flest það sem að föt geta hulið. Þannig að ég sá í rauninni ekkert frásagnarvert.
-
Kaup vikunnar (svona fyrir ykkur capítalistana) : Interpol - Antics
Mér finnst sem veröld okkar snúist að mestu leyti um veraldleg gæði.
Eru veraldleg gæði kannski bara gott mál?
Veit ekki.
Haraldur perri