12.8.05

„Sko, strákar. Ég er með hugmynd..."

Þetta er bara rosalegt. Einhver á auglýsingastofunni hefur bara hreinlega misst sig.

(Án efa einhver niðurhölun falin í þessu, þið vitið allavega af því)

10.8.05

Hresst morgunstart

Til í slaginn 7:55. Svolítið seinn en það gerir ekki mikið til. Strekki iPodinn á mig, set upp hjólagleraugun og smelli á mig hjálminum. Stíg út, svolítið blautt úti. Það er bara hressandi. Leysi hjólið úr lásaprísund sinni, pumpa Out Hud í eyrun og legg af stað.
Dríf mig að næsta göngustíg og byrja að feta mig upp að kópavogshálsinum meðfram hafnarfjarðarveginum. Annar hjólagarpur fyrir framan mig? Gott mál, smá keppni drepur ekki neinn. Gef svolítið í og tek fram úr fljótlega. Ja hérna, rétt lagður af stað og strax byrjaður að keyra mig út. Ekkert væl, gefa bara meira í.
Þýt niður kópavogshálsinn. Enginn má taka fram úr. ENGINN. Reyni að hitta á græna kallinn yfir nýbýlaveginn svo ég þurfi ekki að stoppa og geti neglt á malargöngustíginn meðfram gamla paintballvellinum. Heppnast. Úje, hossihoss, ójafnaójafna. Ekkert sem BESTA HJÓL Í HEIMI ræður ekki við. Ójá.
Jæja, kringlumýrarbrautin. Braut brekku og leiðinda. Hjóla rólega í smástund, njóta hinnar sjaldgæfu jafnsléttu Íslands. Þetta er sko engin Kaupmannahöfn. Kominn undir göngubrúna og nú fer brekkan að taka við. Árans brekka. Halda sér í 10. gír eins lengi og maður heldur út, lækka síðan gírátakið eftir því sem brekkan rís hærra. Nú tekur bruninn við, þessi ljóti bruni í lærunum. Ekkert tuð, djöflast bara í gegnum þetta þennan síðasta spöl, ekki mikið eftir. Loksins. Helsta erfiðið búið og nú tekur bara slökun við, svo að segja. Við erum ekki að tala um neitt jóga hérna ennþá.
Reyna að líta sem best út fyrir keyrandi vegfarendur. Allir hljóta vera að hugsa: „En hvað þessi er duglegur, að hjóla svona á morgnanna. Ég ætti að gera slíkt hið sama, hjóla svolítið". En þau gera það ekki.

Hjólaplebbi.

Fer að líða að lokum ferðarinnar. Kominn í brautarholtið og varla neitt eftir nema verkstæðisport Öskju ehf. Best að taka síðasta spottan með stæl. Gefa í niður þessa litlu brekku, næ líklega 25 - 30 km. hraða. Jess. Fokk. Stéttin er náttúrulega blaut. Sem þýðir minna grip, og ég er líklega að fara aðeins of geyst í beygjuna akkúrat núna. Halla mér of mikið.

CRASH! BOOM! BANG!

Standa hratt upp. Ekki missa kúlið, ekki missa kúlið. Ok, enginn virtist hafa séð þetta. Það hlaut að koma að þessu eftir að hafa hjólað nær áfallalaust í allt sumar.
Ansans. Ekki nóg með það að hafa hruflað mig þó nokkuð hér og hvar, heldur tókst mér einnig að skekkja framhjólagjörðina. Ansans. Hjálmurinn kom ekki einu sinni að neinum notum.
Frábær byrjun á deginum.
Ojæja. iPodinn er þó í lagi, Out Hud linnir allavega ekki látum.

Lagið:
Roxette - Crash! Boom! Bang!
(Frekar óviðeigandi samt)

9.8.05

„Will melt away in..."

Sveit. Ég var upp í sveit um helgina síðustu. Það er alltaf gott að komast í sveitina, og ég er ekki frá því að ég meti það og njóti þess betur í dag heldur en ég gerði áður. Var að hjálpa mömmu og pabba í landinu þeirra. Slá gras, snyrta í kringum trén, taka saman spítnadrasl og fleira. Líkamsrækt í góðu veðri. Það var heitt. Ég brann meira að segja svolítið. Sætur og gríðarlega vöðvastæltur í hlýrabol. Tanned. Eins og kallarnir. Ágætt alveg.
Litli frændi minn Sigurður Heiðar, var með okkur að hjálpa til. Maður með fáránlega mikla orku og sjúklega mikinn áhuga á öllu sem viðkemur stríði. Þegar líða tók á daginn fékk pjakkurinn mig með sér í smá óld fasjónd stríðsleik. Gamla góða byssó. Hann er búinn að koma sér upp heilu vopnabúri. Vélbyssur, handsprengjur, alvöru stríðsbakpoki, hjálmar (já, þeir voru mættir á svæðið)...jú neim it. Og það var bara geðveikt gaman. Hlupum í sitthvora áttina í smá tíma, án þess að líta við, komum okkur úr augsýn og í skjól og reyndum svo að finna hvorn annan og drepa (ekki í alvörunni sko, bara svona þykjó þið skiljið, væri frekar sjúkt ef ég hefði bara virkilega drepið litla frænda minn. Jíz). Hressandi, hlaupandi upp og niður brekkur og maður var bara alveg búinn eftir þetta.
Það er svo ágætt að komast í sveitina stöku sinnum eins og ég er búinn að segja. Það er mjög friðsælt og gefur manni rúm og tíma og næði til að hugsa um allt og ekki neitt. Nett þétt áhyggjuleysi. Svo er svo gaman að fylgjast með dýrunum. Kýrnar eru alveg yndislegar. Þær eru svo miklir álfar.

Ef ég væri kýr þá væri ég alltaf að bora í nefið á mér með tungunni.

Og þegar maður er búinn að vera í sveitinni þá er líka svo fínt að komast aftur í borgina sína. Því þó svo sveitin er góð þá er Reykjavíkin ekki verri. Að ég tali nú ekki um Kópavoginn.
Að keyra einn heim úr sveitinni getur verið kærkomin stund fyrir sjálfan sig. Jafnvel sterkara að kvöldi til heldur en að degi til. Þá sérstaklega ef veðrið er gott. Þá þarftu ekki að einbeita þér alveg jafn mikið að akstrinum eins og t.d. í roki og rigningu. Eða þoku. Þegar ég keyrði heim úr sveitinni á laugardagskvöldið var veðrið stillt og fallegt, og nú þegar aðeins er komið yfir í ágústmánuð er líka farið að dimma svolítið með kvöldinu, sem er svo rómó. Fjöllin og náttúran í kring voru með mér og létu mig finna minna fyrir járnplasthrúgunni sem ég þaut áfram í. Ekki sakar heldur að hafa góða tónlist meðferðis; Yo La Tengo og ...And you will know us by the trail of dead.
Það er gott að komast aftur heim til sín í borgina. Líklega er ég meira borgarbarn en ég hef viljað viðurkenna eða gert mér grein fyrir. Hef náttúrulega búið í borginni alla mína tíð. Það er líka bara allt í lagi. Sveitin og landsbyggðin mun þó alltaf koma til með að eiga smá stað í hjarta mínu.
En heima bíður manns alltaf eitthvað gott; Vinir og vandamenn.

Lagið:
...And you will know us by the trail of dead - Source Tags & Codes
„each painted sign along the road
will melt away in source tags & in code"

8.8.05

Cut the Crap

Þetta er svo mikið háð. Gott háð.

Lagið:
Boards of Canada - Roygbiv
Platan sem þetta lag er á, Music has the right to children, er bara svo mögnuð að maður trúir því ekki. Hún er svo góð og vekur upp svo margt hjá manni. Allavega hjá mér. Þetta lag, roygbiv, er hvað stórkostlegast. Það minnir mig á gamla yndislega daga, sem ég hef ekki einu sinni gerst svo frægur að hafa lifað.

P.s. Ef einhver veit hvað titill lagsins þýðir án þess að googla því. Ég endurtek: án þess að GOOGLEa því, þá er sá hinn sami nokkuð snjall. Kannski bara álíka snjall og Jökull Sólberg sem benti mér á hvað roygbiv stæði líklega fyrir, og þá held ég að hann hafi ekki googlað því. Sú merking grípur líka anda lagsins nokkuð vel.