25.6.04

Haraldur með Eistum

Haraldur er á förum til Eistlands. Ég veit ekki með vissu hversu lengi hann mun þar verða eða hvað hann ætlar að gera en ég vona að það verði gaman hjá honum og að hann muni njóta ferðarinnar til hins ítrasta.
Sökum þessa skyndilega brotthvarfs Haraldar mun lítið verða um skrif frá honum næstu daga. En við skulum vona að ekki lýði á löngu þar til leturkóði Haraldar birtist aftur á skjánum þínum. Lifið heil þangað til.

Fyrir hönd ferðamálaráðuneytis www.haraldur.blogspot.com,

Sléttuhundur

24.6.04

Villtur hjá hjarta

Þakka þér fyrir sléttuhundur. Ég fór að þínum ráðum og naut dagsins til hins ítrasta.

19. Júní, Dagur kvenna og Haraldar. Afmælisdagurinn var frábær. Veðurguðirnir voru mér og öðrum hliðhollir og garðpartíið heppnaðist mjög vel. Ég vil þakka öllum sem sáu sér fært að mæta, og öllum hinum líka. Takk fyrir allar gjafirnar og kortin. Það mátti samt lesa mjög skýr skilaboð út úr öllu þessu gífurlega magni af sælgæti sem mér var gefið... að ég væri hreinlega ekki nógu feitur. Ég veit, ég veit, nú tek ég mig á. Lofa.
Um kvöldið var svo kórpartí hjá Tobba, sem var kröftugt. Góður endir á góðum degi.

---

Ég kláraði loksins að horfa á Wild at Heart um daginn. Ég hef bara alltaf verið svo syfjaður þegar ég reyndi að njóta þessarar eðal myndar, að það bara gekk aldrei. Ég er alltof kvöldsvæfur. En núna hefur það tekist, og Wild at Heart er einkar skemmtileg mynd, og skrítin. Kynna mér fleiri Lynch myndir.

---

Kominn er tími til þess að fá sér ný gleraugu, held ég. Ég er orðinn þreyttur á mínum gömlu, fyrir löngu, enda geng ég varla með þau lengur, týndi þeim eiginlega um daginn. Verð samt eiginlega að hafa einhver til að geta farið í bíó og leikhús, og kannski til að keyra líka. Mamma og pabbi eru orðin þreytt á að fá svona mikið af kvörtunum og reikningum fyrir skemmdum götuskiltum og keilum frá kópavogsbæ. En þettta leiðir okkur einmitt að spurningu sem bróðir minn bar upp að mér um daginn: Hvenær ætlar Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson að fá sér ný gleraugu?