24.9.04

Sérstök Tilfinning

Stundum finn ég fyrir sérstakri tilfinningu, tilfinningu sem er á sinn hátt góð. Hún lýsir sér einhvernvegin þannig að mér líður vel yfir einhverju sem enn er ólokið, yfir einhverju sem enn á eftir að gerast. Getur verið eitthvað sem maður á eftir að gera mikið af. Ýmist spennandi, skemmtilegir eða þægilegir hlutir, eða allt í senn.
Get tekið sem dæmi þegar ég sat í herberginu mínu fyrir nokkrum mánuðum. Ég var nýfluttur, ekki búinn að koma mér fyrir í herberginu og þá varð tilhugsunin um það þegar allt yrði klárt svo spennandi. Myndir komnar upp, öll húsgögn og allt skart komið á sinn stað, geisladiskarnir í röð og reglu og bara je. Oftar læðist þessi tilfinning upp þegar að mikið hefur verið að gera, stress í gangi og mikið liggur við, eins og t.d. fyrir lokapróf eða e-ð álíka mikilvægt. Nær undantekningalaust kemur þetta fyrir þegar að góð og þægileg tónlist er í gangi, tónlist sem vekur sterkar tilfinningar innra með manni.
Einnig getur þessi sérstaka tilfinning borið af sér mikla draumóra og dagdrauma. Spila með hljómsveitinni sinni og slá í gegn, ef ekki væri nema eina kvöldstund, fá frábæra umsögn o.s.frv.

Kannast einhver við þetta? Hefur einhver eitthvað orð yfir þetta? Ég geri veika tilraun til þess að koma orðum yfir þessa sérstöku tilfinningu og kalla hana „þetta verður allt í lagi" tilfinningin.

Eða er þetta aðeins eitthvað fáránlegt raus í mér.
Hið auma og fíkniefnakennda deyfilyf sem kærulausi maðurinn sprautar sig með þegar í harðbakkann slær?

Veit ekki.

20.9.04

Skóstingur

Það er eitthvað svo fúlt þegar að litla plastdótið, sem heldur skóreiminni saman á endanum svo hún trosni ekki í sundur, dettur af. Það stingur eitthvað svo í stúfana við heildarmyndina af skónum, sérstaklega ef þeir eru nýlegir. Líkt og þegar ég stakk gafli í augað á einhverjum kettlingi um daginn. Það stak reyndar bara frekar mikið í augun almennt.

En þetta eru náttúrulega bara smámunir sem að maður á ekki að láta fara í taugarnar á sér. Ef eitthvað á að fara í taugarnar á manni, þá ætti það að minnsta kosti að vera eitthvað virkilega þess virði, eitthvað sem er það stórt að maður hafi eitthvað upp úr því að láta það fara í taugarnar á sér.

En lang best held ég að sé að reyna að vera sem þolinmóðastur. Telja upp að tíu. Ekki ana út í eitthvað pirringsrugl eins og Kolbeinn Kapteinn hér áður fyrr heldur láta hlutina líða hjá í rólegheitunum og takast síðan á við þá með varlegheitum, meiri þolinmæði og jafnvel örlítilli undirgefni.

ok.