25.3.05

Monnípenní

Ég er mikill aðdáandi kraftpönks-emo-rokkbandsins At the Drive-In, og er ég þá sérstaklega hrifinn af því efni sem finna má á meistaraverkinu Relationship of Command. Allt síðan sú plata komst í mínar hendur hef ég fylgst svolítið með gangi mála hjá meðlimum sveitarinnar, því eins og margir vita hætti At the Drive-In að starfa 2001. Meðlimir sveitarinnar skiptust í tvær sveitir, Sparta og The Mars Volta. Sú síðarnefnda ætla ég örlítið að fjalla um.
Nú ekki fyrir svo alls löngu kom út önnur plata The Mars Volta, Frances the Mute. Ég skellti mér á grippinn fyrir rúmmri viku síðan, og ég hef ekki þorað að hlusta á hann í rúma viku. De-Loused in the Comatorium, fyrri plata The MV, olli mér nefnilega svolitlum vonbrigðum. Það var einhvernvegin ekki alveg sami krafturinn í gangi þar eins og var hjá ATDI, kannski átti maður ekkert að vera að búast við því. En ég hef samt sem áður aldrei komist almennilega inn í De-Loused in the Comatorium, þó svo vissulega hafi margt flott verið þar í gangi. Það var því með blendnum hug sem ég keypti mér Frances the Mute, því ég vissi að ég mætti búast við einhverri svipaðri prog-þeysireið. Loksins lét ég verða af því að hlusta á gripinn, sitjandi í sófanum heima í stofu, hávaði stilltur vel upp í 3. Ég hafði sama sem ekkert heyrt af plötunni áður nema þá að mjög vel var látið af henni.
Þarna sat ég í sófanum heima í stofu, í rúmlega 70 mínútur, og hlustaði. Og eitthvað gerist innra með mér. Ég varð ekkert fyrir vitrun eða neitt svoleiðis, en meðan á þessari tónlist stóð, hugsaði ég um nær ekkert annað en tónlistina, og ekkert annað komst að. Þetta var eins og að fara í góða slökun, þar sem þú verður mjög meðvitaður, en aðeins um sjálfan þig og þitt nánasta umhverfi. Þrátt fyrir hljómstyrkinn í græjunum. Alveg magnað, þetta gerist ekki mjög oft. Ef maður verður fyrir svona áhrifum, þá hlýtur tónlistin að vera góð. Akkúrat á þessu augnabliki skildi ég þessa tónlist, akkúrat þessa tónlist, svo vel.
Þess vegna á ég svo bágt með að skilja einkunina og dóminn sem einhver penni hjá tónlistarvefritinu pitchforkmedia gaf plötunni Frances the Mute.
Þetta finnst mér vera gott dæmi um að maður á ávallt að hlusta á tónlist út frá sjálfum sér, og ávallt að hafa dóma aðeins til hliðsjónar. Álit annarra getur gefið því sem að þér finnst aukna merkingu og dýpt, en það breytir ekki, eða að mínu mati má ekki breyta því sem að þér finnst virkilega um málið. Þetta á þá að sjálfsögðu við um margt fleira heldur en tónlist. (þetta kann að vera eitthvað sem einhverjir vita nú þegar, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.)
Nú get ég varla beðið eftir að hlusta aftur á Frances the Mute og mæli ég eindregið með að þið athugið þetta mál líka.

Ég sá um daginn á RÚV finnsku kvikmyndina Mies Vailla Menneisyyttä eða á íslensku Maður án fortíðar (e. The Man Without a Past). Þrælgóð mynd um mann, M (ekki þó M úr James Bond??!) Nei, ekki M úr James Bond. M þarf að takast á við minnisleysi eftir að hafa verið illa laminn af einhverjum rónalýð. Hann byrjar nýtt líf í einhverju rónahverfi rétt utan við Helsinki, verður hrifinn af hjálpræðishersstarfsmanninum Irmu og ég veit ekki hvað og hvað. Sagan var heillandi og sterkt samband sem þróaðist milli aðalpersónanna.
Leikurinn hjá finnsku leikurunum var athyglisverður. Hann var góður, það var ekki málið, en hann var bara eitthvað svo stirður, sem er svosem ekkert slæmt. Hann virkaði allavega svo stirður, samtölin svo straight forward, en það kom sögunni samt sem áður mjög vel til skila. Hef einnig séð þessa tegund leiks í annarri finnskri kvimynd. Þeir er svona þessir Finnar, svo styrðir.

Já, frábært.

Bobby Fischer fékk á dögunum íslenskan ríkisborgararétt án nokkurra vandkvæða hjá íslensku ríkisstjórninni. Ekkert mál, greiðum bara atkvæði um það. Af hverju fá þá ekki aðrir útlendingar, svona eins og hendi væri veifað íslenskan ríkisborgararétt sem jafnmikið þurfa á honum að halda og Fischer?

Kveð