4.8.05

Ekki þó þroskaheftur?

Mér tókst að hefta í puttan á mér í gær fyrir einskæran klaufaskap. Það var vont og ég finn ennþá fyrir farinu í dag. Það er svo sem ekki í frásögur færandi.

Lagið:
Skátar - Beðið eftir Benna
...og einmitt núna var Benni að skrá sig inná MSN. Ég er ekki að grínast.
Vá Halli. En spennandi.

2.8.05

Annar pabbi?

Lauk við bók fyrir stuttu sem ber titilinn Taumhald á skepnum eða á frummálinu, The Restraint of Beasts, eftir Magnus Mills. Er pínu hissa á mér yfir að hafa náð að lesa hana alveg í gegn, því bókin var ekkert frábær á meðan á lestrinum stóð. En ég er nokkuð feginn að hafa klárað hana því annars ætti ég það eftir, þið skiljið. Finnst það hálf fúlt að klára ekki bækur sem maður hefur nú þegar byrjað á. Hef reynt það áður og það nagar mig enn þann dag í dag. Þ.e. samviskuna. Nagar samvisku mína.
***Söguspillir*** (ef þið eigið nokkurntíma eftir að lesa bókina)
Taumhald á skepnum er nokkuð góð bók þegar öllu er á botninn hvolft. Fjallar að vísu ekki um neitt sérstakt, þrjá skoska gæja í girðingavinnu á Englandi. Frábært. Jú, þeir drepa að vísu nokkra náunga fyrir slysni, en það er bara aukaatriði. Þeir semsagt gera ekkert annað en að leggja girðingar og drekka bjór á kvöldin. Og jú, skammast og ergja sig út af yfirmanni sínum, sem er virkilegur sársauki í rassinn. Ég gat samt sett mig svolítið í spor þeirra þar sem ég hef sjálfur unnið við girðingavinnu. Það getur verið ágætt, en það getur líka verið hreint helvíti stundum.
Bókina keypti ég og las aðallega vegna þess að umsögnin um höfundinn vakti áhuga minn. Magnus Mills féll víst í grunnskóla og vinnur sem strætóbílstjóri í London. Tilnefndur síðan til virtra bókmenntaverðlauna fyrir þessa fyrstu bók sína. Það getur greinilega bara hver sem er orðið rithöfundur í dag!
Ég hef samt lúmskan grun um að Taumhald á skepnum sé mun betri á frummálinu, eins og oft vill verða. Breskur húmor og svona, illþýðanlegt stundum.
En sumsé, Taumhald á skepnum er ágætis bók, fín persónusköpun og skondinn húmor.
Tvær og hálf kilja af fimm mögulegum.

Nú tekur við Sin City bókaflokkurinn sem kom í allri sinni dýrð heim til mín um daginn. Næstum búinn með þá fyrstu, The Hard Goodbye, og þetta er bara stórkostleg lesning. Stendur fyllilega undir væntingum mínum.

Þar sem ég er verslunarmaður eyddi ég frídegi verslunarmanna líkt og kristinn maður eyðir sunnudegi. Í hvíld... Tjah, ok, ég er ekki beint verslunarmaður, en ég vinn í verslun, eða svona, við að halda versluninni gangandi, ég er ekki beint að afgreiða kúnnann eða neitt svoleiðis, en ég reyni að hjálpa til við að kúnninn fái vöruna sína. Svo verslunarlega séð er ég ekki beint verslunarmaður en vinn samt í verslun þið skiljið. Þó ég sé ekkert endilega að handfjatla peninga eða slíkt þá get ég alveg verið að vinna í kringum þá, til að verslunin græði peninga, og ég í leiðinni. Ok? Þannig að tæknilega séð finnst mér ég alveg geta verið í fríi og hvílt mig á frídegi verslunarmanna fyrst ég vinn nú einu sinni í verslun, því allir aðrir eru í fríi, og þeir vinna kannski ekki einu sinni í verslun...hmmm...
Allavega, þá var ég bara e-ð að gere ekki neitt í gær, las bara og hlustaði mikið á tónlist eins og t.d. Blonde Redhead. Svo góð hljómsveit. Svo góð tónlist.

Lagið:
Bara, þarna, lagið með Blonde Redhead.

1.8.05

Indoor demon. The demon of indoors!

af því sem ég sá...:

Svölust voru Singapore Sling og The Raveonettes
Hressastir voru Jonathan Richman, Brim og Reykjavík!
Alveg rosalega mikið tjilluð á því voru Hudson Wayne, Þórir og Cat Power
Góður as always var Mugison
Mest á óvart komu Lake Trout
*viðbót*: Verð að bæta því við að lang, lang sveittastir voru Trabant. Sérstaklega gítarleikarinn.

Hápunkturinn voru Blonde Redhead. Þó svo að þetta voru án efa ekki nálægt þeirra sterkustu tónleikar, af sögusögnum að dæma auk þess sem þau spiluðu svo stutt sökum eðli tónlistarhátíðarinnar, þá kemst ég ekki nær því að lýsa því sem ég sá öðruvísi en að það var ekki af þessum heimi.