8.1.05

Hvað á maður svo sem að segja?

Mér líður ágætlega núna eftir veikindatörn. Fór í körfu áðan sem var hressandi. Kíki örugglega í eitt stykki partý á eftir. Heng svo og geri líklega ekki neitt á morgun, en ég ætla mér þó að hlusta á Ratatat einhverntíman í sunnudagsgleðinni. Kannski tek ég til. Svo kíki ég í skólann á mánudaginn og finn mér e-ð vinnuplan í samráði við nokkra hressa kennara fyrir þessar skitnu 12 einingar sem ég á eftir til stúdentsprófs. Engar áhyggjur, þetta mun klárast núna.

Fyrir rétt rúmri viku voru áramót. Tjah, fyrir rétt rúmri viku var árið 2004. ÓTRÚLEGT! 2004 var gott. Mikið að gerast. Skóli, kór, Eistland, sumarvinna, sumardjamm...ok, kannski var ekkert svo mikið að gerast eftir alltsaman...jú, bíðið við, hverju er ég að gleyma?

Ég fékk eitt stærsta tækifæri lífs míns til þessa þegar líða tók á haustið og veturinn tók við. Eftir mjög skemmtilegt námsskeið, nokkur stressandi inntökupróf og spunamaraþon fékk ég upp í hendurnar það sem ég hafði allan tímann stefnt að og ætlað mér, hlutverk Jóa í uppsetningu LFMH á Martröð á jólanótt. En þar sem ég stóð með þetta í höndunum hugsaði ég með mér hvort ég ætti eftir að geta valdið þessu? Hlutverk sem krefst mikils, söngs og leiks? Á ég e-ð erindi í þetta sjitt?
Æfingar hófust og ég gerði það eina sem ég gat gert, ég gaf allt mitt í þetta. Langir dagar, langar og strembnar æfingar en nær alltaf skemmtilegar. Allt borgaði sig þetta að lokum. Ég stend í mikilli þakkarskuld við leikstjórana, Odd Bjarna og Margréti. Þau kenndu mér ógeðslega mikið.
Margir kynnu að segja: ,,Halli minn, er þetta nú ekki komið gott, orðinn tvítugur strákurinn og ennþá eitthvað að fíflast þarna með þessu MH leikfélagi? Hva, er þetta ekki þín 5. LFMH sýning? Er þetta nú ekki farið að koma gott? Ha?" Svarið er einfalt. Nei (í jákvæðum skilningi þess orðs). Þetta er svo drulluskemmtilegt. Á meðan krakkarnir sem eru með manni í þessu eru alltaf þetta skemmtileg, þá getur maður ekki annað en haldið áfram. Svo hef ég komist að því að ég er langt því frá að fara fá nóg af þessu leiklistardæmi öllu saman. Leiklist á hug minn allan þessa stundina.
Árið gat því ekki endað betur, með frumsýningu á leikriti. Ég þakka allt hrós sem ég hef fengið og ég met það mikils að fólk hafi skemmt sér og sé tiltölulega sátt eftir að hafa séð sýninguna. Móðir mín sagði við mig daginn eftir frumsýninguna að hún væri stolt af mér og þar sem hún hafði verið að horfa á mig þarna á sviðinu hafði hún áttað sig nokkuð á því hvert ég stefndi. Miðað við það sem fólk segir við mig eftir sýningarnar er ég líka að fá nokkuð góða hugmynd um hvað ég ætla að gera í framtíðinni.

Nýja árið, 2005, gat í rauninni heldur ekki byrjað betur. Með Skúla og Frikka, niðri hjá bróður. Bjór, freyðivín og viský og síðast en ekki síst: Singstar!

Hvað á maður svo sem að segja? Líðanin er bara nokkuð góð í augnablikinu. Ég er ánægður. Ég er sáttur.

4.1.05

Dauði

Ég er svo veikur að ég gæti dáið.

Skemmtilegt Haraldur. Alveg frábært.